Print

Sameinuðu þjóðirnar

Sameinuðu þjóðirnar eru samtök sjálfstæðra ríkja sem hafa sameinast um að vinna að friði og efnahagslegum og félagslegum framförum í heiminum. Sameinuðu þjóðirnar voru formlega stofnaðar í kjölfar seinni heimstyrjaldarinnar árið 1945 með þátttöku 51 ríkis. Í dag eru aðildarríkin orðin 192. Ísland gerðist aðili að Sameinuðu þjóðunum árið 1946.

Sameinuðu þjóðirnar koma ekki fram fyrir hönd neinnar sérstakrar ríkisstjórnar eða þjóðar. Þær eru frekar eins konar félag fullvalda ríkja og geta aðeins gert það sem aðildarríkin vilja að sé gert. Í raun eru þær eins konar alþjóðavettvangur, þar sem fulltrúar sjálfstæðra ríkja hittast til að ræða heimsmál sem hafa áhrif á einstök lönd eða löndin í sameiningu.

Sameinuðu þjóðirnar skipa öndvegi í alþjóðlegu starfi þegar leitað er lausna á þeim vandamálum sem mannkynið stendur frammi fyrir. Ýmsar stofnanir eru starfræktar á vegum Sameinuðu þjóðanna, t.d. Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO), Flóttamannahjálp Sameinuðu þjóðanna (UNHCR) og Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna (UNICEF).