Print

Kennsluhugmyndir fyrir eldri börn

Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, eða Barnasáttmálinn, er eini alþjóðlegi samningurinn sem sérstaklega á við um börn. Samningurinn felur í sér alþjóðlega viðurkenningu á að börn heimsins þarfnist sérstakrar verndar umfram hina fullorðnu og að börn séu sjálfstæðir einstaklingar með fullgild réttindi óháð réttindum fullorðinna. Öllum þeim sem koma að málefnum barna ber að gera það sem í þeirra valdi stendur til að framfylgja samningnum. Hér er átt við stjórnvöld, foreldra, skóla og alla aðra sem vinna með börnum eða að málefnum þeirra.

Grundvallarforsenda þess að börn fái notið þeirra réttinda sem þeim eru tryggð í Barnasáttmálanum er að þau sjálf, sem og aðrir, þekki inntak hans. Í 42.–45. grein Barnasáttmálans er kveðið á um mikilvægi þess að kynna börnum og fullorðnum þau réttindi sem sáttmálinn kveður á um. Góð þekking á sáttmálanum veitir stjórnvöldum virkt aðhald og stuðlar að því að réttindi barna séu ávallt virt.

Árið 2005 samþykktu öll aðildarríki Sameinuðu þjóðanna, að Íslandi meðtöldu, að efla kennslu um mannréttindi á grunn- og framhaldsskólastigi, þar á meðal fræðslu um alþjóðlega sáttmála eins og Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna.

Árið 2008 voru ný lög um leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla samþykkt á Íslandi og nýjar aðalnámskrár fyrir öll skólastigin árið 2011. Aðalnámskráin á að vera rammi utan um skólastarfið og birta heildarsýn um menntun og útfæra nánar þá menntastefnu sem felst í lögunum. Sú menntastefna sem birtist í aðalnámskrá grunnskóla er reist á sex grunnþáttum menntunar sem voru leiðarljós við námskrárgerðina. Þessir grunnþættir eru læsi, sjálfbærni, heilbrigði og velferð, lýðræði og mannréttindi, jafnrétti og sköpun. Auk þess að byggja á lögum um grunnskóla, byggir aðalnámskráin á ýmsum öðrum lögum og alþjóðlegum samningum, sem Ísland er aðili að. Þar má nefna stefnumörkun UNESCO um almenna menntun og um sjálfbæra þróun, stefnumörkun Evrópuráðsins um lýðræði og mannréttindi og síðast en ekki síst Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna.

Námsvefurinn barnasattmali.is er því viðleitni til að auðvelda grunnskólum á Íslandi að vinna með og uppfylla þau markmið sem birtast bæði í íslenskum lögum og námskrám og alþjóðlegum samþykktum.

Vefinn er hægt að nýta einan og sér eða sem hluta af annarri fræðslu um mannréttindamál. Hvað varðar tengsl efnisins við einstakar námsgreinar grunnskólans, má helst nefna námsgreinina lífsleikni. Henni er öðrum fremur ætlað að takast á við þessi viðfangsefni í menntun barna, en margir þættir tengjast þó öðrum námsgreinum, s.s. samfélagsgreinum, siðfræði, náttúrufræði og umhverfismennt, stærðfræði og íslensku.

 Meginmarkmið með þessum vef er að börn og fullorðnir

 • þekki Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og efni hans,
 • viti að börn hafa sjálfstæð réttindi,
 • átti sig á að börn þurfa sérstaka vernd og umönnun umfram þá sem fullorðnir eru,
 • viti að börn eiga rétt á að láta skoðanir sínar í ljós og hafa áhrif
 • skilji að Barnasáttmálinn kveður á um jafnræði allra barna.

Vefurinn inniheldur gagnvirk verkefni og fróðleik fyrir börn, ýmiss konar fróðleik um Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og mannréttindi barna almennt og leiðbeiningar um notkun verkefnanna í skólastarfi. Verkefnin eru tvískipt, annars vegar er vefsvæði fyrir yngri börn, sem henta nemendum á aldrinum 5–9 ára og hins vegar vefsvæði fyrir eldri börn, sem hentar nemendum á aldrinum 10–14 ára. Á vefsvæði fyrir eldri börn er farið í leiðangur um Réttindaeyjuna, þar sem nemendur leysa verkefni á samtals sextán reitum á fjórum þrepum með hjálp sögumanna sem nefnast Réttur og Réttlát.

Réttindaeyjan er eins og ratleikur eða tölvuleikur þar sem nemandi byrjar á fyrsta reit á fyrsta þrepi og fer svo á næsta reit á því þrepi. Þegar nemandi er búinn með öll verkefnin á fyrsta þrepi fer hann á næsta þrep og svo koll af kolli. Börn geta farið í leiðangur um eyjuna og lært um Barnasáttmálann og mannréttindi barna án þess að það sé hluti af öðru námi eða skólastarfi. Réttindaeyjan er þó kjörinn vettvangur til notkunar í skólastarfi, ein og sér, eða sem hluti af öðru námi. Þá er mikilvægt að kennarar láti nemendur vinna verkefnin í þeirri röð sem þau eru þar sem þau byggjast að nokkru leyti hvert á öðru. Hægt er að samþætta leiðangur um Réttindaeyjuna ýmsum námsgreinum, s.s. lífsleikni, samfélagsgreinum , stærðfræði eða náttúrufræði.

Á hverju þrepi er ákveðið meginviðfangsefni eða þema. Þrepin, þemu og verkefni hvers þreps eru eftirfarandi:

 • Réttindi allra barna: Réttindi og forréttindi – Réttindi og ábyrgð – Bann við mismunun.
 • Heilsa, menntun, þroski: Börn eiga rétt á menntun – Ganga allir í skóla? – Draumur sem rættist – Heilsa.
 • Öryggi og vernd: Börn eiga rétt á vernd gegn ofbeldi – Börn eiga rétt á vernd gegn vinnu sem skaðar þau.
 • Fjölskyldan: Að eiga tvö heimili – Öll börn eiga rétt á nafni og ríkisfangi – Fæðingarskráning.

Verkefni Réttindaeyjunnar er hægt að vinna án nokkurrar leiðsagnar. Mikill fróðleikur er í hverju verkefni sem hjálpar nemendum við að leysa þrautir og svara spurningum. Kennarar geta þó dýpkað þekkingu og færni nemenda með ýmsu móti. Nemendur geta unnið verkefnin í tölvuveri hvert fyrir sig, eða þau má vinna í hóp með hjálp skjávarpa.

Hér á eftir koma nánari upplýsingar um hvert verkefni og hugmyndir að frekari vinnu.

 

Þema: Réttindi allra barna

Verkefni: Réttindi og forréttindi – Réttindi og ábyrgð – Bann við mismunun.

Markmið

Að nemendur

 • skilji muninn á réttindum og forréttindum og geti greint þar á milli,
 • átti sig á að öll börn eiga að njóta réttinda Barnasáttmálans, óháð því hvernig þau eru, við hvaða aðstæður þau búa eða hvar þau búa í heiminum og að bannað sé að mismuna börnum .
 • skilji að með auknum aldri og þroska öðlast börn meiri réttindi og bera því jafnframt meiri ábyrgð.

Bakgrunnsupplýsingar
Í verkefninu eru börnum kynnt ýmis réttindi sem þeim eru tryggð í Barnasáttmálanum og byggist verkefnið aðallega á 2. grein sáttmálans, jafnræðisreglunni. Mikilvægt er að nemendur átti sig á að öll börn eiga að njóta sömu réttinda, óháð því hver þau eru, hvar þau búa eða hvernig þau líta út, og að óheimilt er að mismuna börnum. Þrátt fyrir að Barnasáttmálinn segi að tryggja eigi öllum börnum sömu grunnréttindi er það staðreynd að það hefur enn ekki tekist í ýmsum ríkjum. Það er jafnframt mismunandi eftir ríkjum í hvaða mæli réttindi barna eru tryggð samkvæmt lögum.

Hér á landi, og víða annars staðar, njóta börn mismikilla forréttinda. Sem dæmi um réttindi sem öll börn eiga að njóta er fæði og klæði, menntun, heilsuvernd, hvíld, tómstundir, leikir og skemmtanir sem hæfa aldri þeirra og þroska og frjáls þátttaka í menningarlífi og listum. Börn eiga hins vegar ekki rétt á að njóta ákveðinna forréttinda eins og t.d. að fá alltaf uppáhaldsmatinn sinn eða sælgæti, að eiga sérstök leikföng, æfa tilteknar íþróttir eða að ganga í tónlistarskóla. Með hærri aldri og þroska fá börn aukin réttindi og fylgir því jafnframt aukin ábyrgð á að virða réttindi annarra.

Hugmyndir að frekari umræðu og vinnu

 • Tómstundir barna á Íslandi; hverjar eru þær og hver er kostnaður við mismunandi tómstundir? Hvað er eðlilegt að barn á Íslandi stundi miklar skipulagðar tómstundir? Hafa öll börn á Íslandi tækifæri til að taka þátt í tómstundastarfi? Könnun á tómstundum barna í bekknum.
 • Forréttindi sem jafna tækifæri. Er þess gætt í skólanum að fatlaðir og ófatlaðir hafi jöfn tækifæri og aðgengi? Könnun á aðgengi fatlaðra í stofnunum sveitarfélagins. Nemendur geri lista yfir réttindi og forréttindi sem þeir njóta og reyni að flokka og meta mikilvægi, hver fyrir sig.
 • Réttindi og ábyrgð. Nemendur finni dæmi um aukin réttindi með hærri aldri. Hér er hægt að nefna útivistartíma, leyfi til að sjá ákveðnar kvikmyndir og nota tölvuleiki o.fl.
 • Bann við mismunun. Nemendur skoði einstakar greinar Barnasáttmálans með það fyrir augum að meta hvort öll börn heimsins njóti þeirra réttinda sem þar er getið.
 • Bann við mismunun. Nemendur finni fleiri dæmi um mismunun en þau sem nefnd eru í verkefninu (t.d. vegna stöðu foreldra, efnahags, kynhneigðar, fötlunar).
 • Biðja nemendur að leika hlutverkaleiki um dæmin um mismunun sem þeir finna.
 • Einelti og útilokun. Ræða um einelti og mikilvægi þess að útiloka ekki einstaklinga vegna þess að þeir hafa einhverja sérstöðu, ræða gildi fjölbreytileikans og að hver og einn sé metinn af eigin verðleikum.

 

Þema: Heilsa, menntun, þroski

Verkefni: Börn eiga rétt á menntun – Ganga allir í skóla? – Draumur sem rættist – Heilsa.

Markmið
Markmiðið með verkefnunum er að börn

 • viti að öll börn eiga rétt á besta mögulegu heilsufari,
 • viti að börn eiga rétt á því að njóta menntunar og ganga í skóla,
 • átti sig á því að með menntun og skólagöngu öðlast fólk ýmsa færni og þekkingu sem hjálpar því í lífinu,
 • viti að allir eiga rétt á námi við hæfi og aðstoð ef þeir þurfa,
 • átti sig á að ekki fá öll börn í heiminum að ganga í skóla,
 • kynnist með sögum og dæmum mismunandi aðstæðum barna í heiminum hvað varðar menntun og skólagöngu og reyni að setja sig í spor þeirra.

Bakgrunnsupplýsingar
Ein af grunngreinum Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna er 6. greinin; rétturinn til lífs og þroska. Til að barn megi lifa og þroskast er nauðsynlegt að tryggja því umhyggju og vernd, heilsugæslu og menntun.

Rétturinn til menntunar og skólagöngu hefur ítrekað verið settur fram í alþjóðasamningum og ályktunum þjóða heims. Rétturinn til menntunar er sérstaklega tryggður í 28. og 29. gr. Barnasáttmálans. Árið 2000 settu Sameinuðu þjóðirnar fram svokölluð þúsaldarmarkmið. Eitt af þeim var að árið 2015 ættu öll börn heimsins að njóta grunnskólamenntunar og að sú menntun eigi að vera rík að gæðum. Enn er þó langt í land að því markmiði verði náð. Árið 2009 voru um 75 milljónir barna á grunnskólaaldri í heiminum án skólagöngu. Stærsti hluti þeirra barna, eða um 40 milljónir, eru börn sem búa í stríðshrjáðum löndum. Barnaheill – Save the Children – UNICEF og önnur mannréttindasamtök hafa vakið athygli á þessu broti á réttindum barna og eru jafnframt að vinna að uppbyggingu skóla og menntunar barna í þessum löndum. Segja má að öll börn á Íslandi njóti grunnmenntunar og eiga grunnskólar að tryggja að öll börn fái nám við hæfi, skólinn á að vera fyrir öll börn.

Hugmyndir að frekari umræðu og vinnu.

 • Umræður um menntun og gildi hennar. Nemendur búi til fleiri setningar um hvernig menntun bætir líf og réttindi barna sbr. verkefnið Börn eiga rétt á menntun.
 • Ganga allir í skóla? Nemendur finni á landakorti þau lönd sem eru í stöplaritum. Í hvaða heimsálfu eru fæst börn í skóla og í hvaða heimsálfu eru flest börn í skóla? Hvað er hægt að gera til að breyta þessu? Nemendur kynni sér menntunarverkefni UNICEF og Barnaheilla – Save the Children. Hægt er að nálgast upplýsingar á vefsíðum samtakanna.
 • Draumur sem rættist. Finna Egyptaland á landakorti. Ræða söguna um Raweyu og bera aðstæður hennar saman við aðstæður barna á Íslandi. Kynna sér aðstæður barna í Egyptalandi og reyna að finna sögur af fleiri börnum þaðan. Finna jafnframt fleiri sögur af börnum víða um heim og bera saman aðstæður þeirra gagnvart menntunarmöguleikum. Nemendur semja sögur sjálf.
 • Ræða mismunandi stöðu stúlkna í heiminum og gildi menntunar fyrir jafnrétti kynjanna.
 • Heilsa. Kynna sér heilsugæslu, mæðravernd og ungbarnaeftirlit á Íslandi. Bera saman við slíkt t.d. í löndunum sem gefin eru upp á stöplaritunum.
 • Kynna sér fæðingarþyngd barna í mismunandi löndum.
 • Í verkefnum merkja nemendur væntanlega oft við Níger og því vakna sennilega ýmsar spurningar um það land. Nemendur gætu kynnt sér ítarlega aðstæður í Níger, náttúrufar, sögu, stjórnmálaástand o.fl. og reynt að leita ástæðna fyrir slæmri stöðu barna í Níger. Önnur lönd er einnig vert að skoða, s.s. Afganistan og Sierra Leone. Hægt er að finna ítarlegar upplýsingar um flest lönd heimsins á vef Félags Sameinuðu þjóðanna á Íslandi: www.globalis.is
 • Nemendur semji leikþátt/leikþætti sem fjallar um rétt barna til lífs og þroska, heilsugæslu og menntunar.

 

Þema: Öryggi og vernd

Verkefni: Börn eiga rétt á vernd gegn ofbeldi – Börn eiga rétt á vernd gegn vinnu sem skaðar þau.

Markmið
Markmiðið með verkefninu er að börn

 • viti að þau eiga rétt á umönnun og vernd gegn öllu ofbeldi,
 • viti hvað er líkamlegt, andlegt og kynferðislegt ofbeldi,
 • skilji mikilvægi þess að segja frá hafi þau orðið fyrir ofbeldi,
 • átti sig á að vanræksla, líkamlegar refsingar, einelti og það að búa við ofbeldi á heimili er líka ofbeldi,
 • átti sig á muninum á góðum og slæmum leyndarmálum,
 • geti greint umönnun, jákvæða snertingu, eðlileg samskipti og leiðsögn foreldra frá ofbeldi og háttsemi sem brýtur niður og skaðar,
 • geri greinarmun á eðlilegum ágreiningi og ofbeldi.

Bakgrunnsupplýsingar

Samkvæmt 19. og 34.gr. Barnasáttmálans eiga börn rétt á vernd gegn öllu ofbeldi, líkamlegu, andlegu og kynferðislegu, og gegn vanrækslu og skulu fá aðstoð og stuðning hafi þau orðið fyrir slíku. Einelti er andlegt ofbeldi sem brýtur niður einstaklinginn og getur líka verið líkamlegt og jafnvel kynferðislegt. Barn sem býr við ofbeldi á heimili, jafnvel þó svo virðist sem það verði ekki fyrir beinu ofbeldi sjálft, er í raun beitt andlegu ofbeldi við að upplifa það að annað foreldri beiti hitt ofbeldi og það óöryggi og álag sem því fylgir. Vanvirðandi háttsemi gagnvart barni og líkamlegar refsingar teljast líka ofbeldi. Íslensk lög eiga að tryggja börnum vernd gegn hvers kyns ofbeldi, þar með töldum líkamlegum refsingum. Í barnaverndarlögum er kveðið skýrt á um skyldu almennings og fólks sem vinnur með börnum að tilkynna til barnaverndar ef það hefur rökstuddan grun um að barn hafi orðið fyrir ofbeldi. Það er svo barnaverndar að ganga úr skugga um hvort sá grunur er á rökum reistur og bregðast við með viðeigandi hætti. Í 12. og 13. gr. Barnasáttmálans er kveðið á um rétt barna til að tjá sig og láta skoðanir sínar í ljós. Í dæmum í verkefninu Börn eiga rétt á vernd gegn ofbeldi er einmitt lögð áhersla á mikilvægi þess að börn segi frá hafi þau lent í ofbeldi og tjái sig og segi hvernig þeim líður við ákveðnar aðstæður, s.s. ef foreldrar eru að rífast.

Á Íslandi hefur löngum tíðkast að börn vinni, jafnvel frá unga aldri, við barnagæslu, sveitastörf, verslunarstörf o.fl. Í 32. gr. Barnasáttmálans er kveðið á um vernd barna gegn arðráni og vinnu sem spillir eða hindrar nám þeirra eða skaðar heilsu þeirra og þroska. Í landinu eru lög sem eiga að tryggja að vinnan, vinnutíminn og aðstæður hæfi aldri þeirra og spilli ekki heilsu þeirra, þroska eða námi. Eðlileg samhjálp og samvinna á heimili telst ekki til vinnu barna. Foreldrar og þeir sem vinna með börnum þurfa að geta metið hvenær verkefni sem barni er falið er við hæfi og hvenær ekki. Jafnframt er mikilvægt að meta hvenær of mikil ábyrgð er lögð á of ung börn, s.s við gæslu annarra barna, eða túlkun og þýðingar fyrir foreldra og ættmenni í tilfelli barna innflytjenda. 

Víða í heiminum er löggjöf um vinnu barna veik og barnavinna útbreidd. Börn vinna í verksmiðjum, námum, við landbúnaðarstörf og víðar, oft þar sem skilyrði eru slæm og heilsa þeirra skaðast. Vinnan kemur jafnframt í veg fyrir að þau geti sinnt námi, gengið í skóla eða notið frítíma og tómstunda. Víða treysta foreldrar á vinnu barna sinna og þær tekjur sem fást vegna hennar. Mikilvægt er að alþjóðasamfélagið vinni að því að tryggja að öll börn heimsins fá vend gegn vinnu sem skaðar þau eða hindrar nám þeirra og uppfylli þannig 32. gr. Barnasáttmálans.

Hugmyndir að frekari umræðu og vinnu

 • Börn eiga rétt á vernd gegn ofbeldi. Í verkefninu Börn eiga rétt á vernd gegn ofbeldi er fjöldi dæma sem hægt er að ræða nánar í skólastofu. Hvert og eitt dæmi gefur tilefni til margs konar umræðu og vinnu, bæði dæmið sjálft, hver eru rétt viðbrögð og af hverju. Hægt er að ræða slíkt í bekknum í heild eða skipta nemendum í hópa og hver hópur fær eitt dæmi. Mikilvægt er að ræða að líðan og tilfinningar eru aldrei rangar.
 • Börn eiga rétt á vernd gegn ofbeldi. Biðja nemendur að semja og flytja dans sem túlkar mismunandi birtingarmyndir ofbeldis gegn börnum: kynferðislegt ofbeldi, heimilisofbeldi, vanrækslu, einelti.
 • Börn eiga rétt á vernd gegn vinnu sem skaðar þau. Hvert og eitt dæmi í verkefninu gefur tilefni til frekari umræðu, með bekknum í heild eða í hópum, hver hópur með eitt dæmi.
 • Vinna barna á Íslandi. Kynna sér löggjöf um vinnu barna og hvernig henni er framfylgt. Gera könnun í skólanum um vinnu nemenda með skóla, við hvað þau vinna og hve margar stundir á viku. Ræða um þátttöku barna í heimilisstörfum og mikilvægi þess að hjálpast að heima og að sýna ábyrgð í umgengni og virðingu fyrir verkum annarra.
 • Vinna barna á Íslandi. Nemendur fái það heimaverkefni að taka viðtal við afa sína og ömmur og spyrja þau hvernig vinnu þeirra var háttað þegar þau voru börn.
 • Vinna barna erlendis. Finna á netinu sögur um vinnu barna. Hvernig störf vinna börnin og við hvaða aðstæður? Frá hvaða löndum eru þau? Hve lengi vinna þau? Kemur vinnan í veg fyrir nám þeirra?
 • Sanngjörn viðskipti (Fair trade). Kynna sér Fair trade samtökin, en eitt af meginskilyrðum fyrir að vöur fái Fair trade-viðurkenningu er að varan hafi ekki verið unnin í nauðungarvinnu eða af börnum.
 • Sanngjörn viðskipti (Fair trade). Finna hugmyndir að nytjahlutum sem búa má til úr endurunnu efni (eins og Fair trade-vörur eru oft gerðar) og föndra varning sem nemendur geta sýnt eða jafnvel selt til fjáröflunar.

 

Þema: Fjölskyldan

Verkefni: Að eiga tvö heimili – Öll börn eiga rétt á nafni og ríkisfangi – Fæðingaskráning.

Markmið
Markmiðið með verkefninu er að börn

 • viti að öll börn eiga rétt á að þekkja foreldra sína og umgangast þá báða,
 • skilji að foreldrar bera sameiginlega ábyrgð á umönnun barna sinna,
 • átti sig á að þau eiga rétt á að njóta samvista fjölskyldna beggja foreldra,
 • viti að öll börn eiga rétt á nafni og ríkisfangi og að öll börn skuli skrá við fæðingu,
 • skilji mikilvægi slíkrar skráningar og mikilvægi þjónustunnar sem ríki veita þegnum sínum.

Bakgrunnsuplýsingar
Börn eiga rétt á að þekkja og njóta umönnunar fjölskyldu sinnar. Foreldrar bera sameiginlega ábyrgð á umönnun og uppeldi barna sinna samkvæmt Barnasáttmálanum og þeim ber að veita börnum sínum leiðsögn og stuðning í samræmi við þroska þeirra. Aðildarríkjum ber að virða ábyrgð, rétt og skyldur foreldra, en ber jafnframt að tryggja foreldrum og fjölskyldum aðstoð og úrræði ef þörf krefur.

Börn eiga rétt á að halda fjölskyldutengslum sínum og umgangast báða foreldra sína, nema það sé andstætt hagsmunum þeirra og velferð. Séu foreldrar ekki til staðar, eða ekki færir um að annast börn sín, er barnaverndaryfirvöldum skylt að sjá til þess að barnið fái annað heimili og umönnun, s.s. fóstur eða ættleiðingu. Alltaf skal það sem barninu er fyrir bestu haft að leiðarljósi við slíkar ákvarðanir.

Öll börn skal skrá við fæðingu og eiga þau rétt á nafni og ríkisfangi. Á Íslandi þarf að gefa barni nafn áður en það hefur náð sex mánaða aldri. Barn má bæði kenna við föður og móður. Það er þó ekki alltaf þannig. Töluvert er um óskráð börn og börn án ríkisfangs í heiminum. Það á ekki síst við um börn sem fæðast þar sem stríðsástand ríkir eða upplausn er í samfélaginu eða þegar um flóttabörn er að ræða. Nemendur kynnast dæmi um slíkt í verkefninu Öll börn eiga rétt á nafni og ríkisfangi. Hægt er að nota það verkefni til að varpa ljósi á aðstæður sem barnungir flóttamenn þurfa að upplifa og hversu varnarlaus flóttabörn eru gagnvart brotum á rétti þeirra.

Hugmyndir að frekari umræðu og vinnu

 • Að eiga tvö heimili. Líklegt er að nokkur börn í hverjum bekk búi við svipaðar aðstæður og Diljá í sögunni. Þessi mál geta oft verið mjög viðkvæm en mikilvægt er að börn sjái að þau eru ekki ein um ýmsar tilfinningar og hugsanir sem snerta slíkar aðstæður. Einnig er mikilvægt að þau geri sér grein fyrir því að þau eiga rétt á að tjá skoðanir sínar og foreldrar þeirra eiga að taka tillit til þeirra.
 • Að eiga tvö heimili. Nemendur semji og flytji stuttan leikþátt um barn sem á tvær aðskildar fjölskyldur og hvaða áhrif (góð og slæm) það hafi á barnið.
 • Að eiga tvö heimili. Nemendur semji og skrautriti yfirlýsingu þar sem upp eru talin atriði sem nemendur telja nauðsynlegt að foreldrar barna sem eiga tvö heimili tileinki sér svo að barninu líði vel.
 • Öll börn eiga rétt á nafni og ríkisfangi. Nemendur finni upplýsingar um Norður- og Suður-Súdan og búi til glærusýningu með upplýsingum um löndin tvö. Hægt er að finna ítarlegar upplýsingar t.d. á www.globalis.is
 • Öll börn eiga rétt á nafni og ríkisfangi. Nemendur haldi í vefleiðangur og finni myndbönd með þjóðdönsum frá Súdan og æfi og sýni í bekk eða á sal (hægt að slá inn „tribal dance“ ásamt „sudan“ á leitarvél á netinu).
 • Nemendur geri lista yfir þá þjónustu sem barn sem er ekki skráð fer á mis við (menntun, heilsugæslu, lagavernd gegn ofbeldi og misnotkun , vernd gegn barnaþrælkun og barnahermennsku, þátttöku í tómstunda- og félagsstarfi, o.fl.)
 • Nemendur leggi í netleiðangur og leiti uppi sögur barnungra flóttamanna (t.d. með því að slá inn „refugee stories“ í leitarvél á netinu) og þýði þær úr ensku fyrir bekkinn.
 • Öll börn eiga rétt á nafni og ríkisfangi. Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna hefur framleitt tölvuleik þar sem leikmenn setja sig í spor flóttamanna. Hægt er að hlaða leiknum niður fyrir snjallsíma og spjaldtölvur á slóðinni: http://mylifeasarefugee.org/