Print

Kennsluhugmyndir yngri börn

Inngangur

Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, eða Barnasáttmálinn, er eini alþjóðlegi samningurinn sem sérstaklega á við um börn. Samningurinn felur í sér alþjóðlega viðurkenningu á að börn heimsins þarfnist sérstakrar verndar umfram hina fullorðnu og að börn séu sjálfstæðir einstaklingar með fullgild réttindi óháð réttindum fullorðinna. Öllum þeim sem koma að málefnum barna ber að gera það sem í þeirra valdi stendur til að framfylgja samningnum. Hér er átt við stjórnvöld, foreldra, skóla og alla aðra sem vinna með börnum eða að málefnum þeirra.

Grundvallarforsenda þess að börn fái notið þeirra réttinda sem þeim eru tryggð í Barnasáttmálanum er að þau sjálf, sem og aðrir, þekki inntak hans. Í 42.–45. grein Barnasáttmálans er kveðið á um mikilvægi þess að kynna börnum og fullorðnum þau réttindi sem sáttmálinn kveður á um. Góð þekking á sáttmálanum veitir stjórnvöldum virkt aðhald og stuðlar að því að réttindi barna séu ávallt virt.

Árið 2005 samþykktu öll aðildarríki Sameinuðu þjóðanna, að Íslandi meðtöldu, að efla kennslu um mannréttindi á grunn- og framhaldsskólastigi, þar á meðal fræðslu um alþjóðlega sáttmála eins og Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna.

Árið 2008 voru ný lög um leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla samþykkt á Alþingi og nýjar aðalnámskrár fyrir öll skólastigin árið 2011. Aðalnámskráin á að vera rammi utan um skólastarfið og birta heildarsýn um menntun og útfæra nánar þá menntastefnu sem felst í lögunum. Sú menntastefna sem birtist í aðalnámskrá grunnskóla er reist á sex grunnþáttum menntunar sem voru leiðarljós við námskrárgerðina. Þessir grunnþættir eru læsi, sjálfbærni, heilbrigði og velferð, lýðræði og mannréttindi, jafnrétti og sköpun. Auk þess að byggja á lögum um grunnskóla, byggir aðalnámskráin á ýmsum öðrum lögum og alþjóðlegum samningum, sem Ísland er aðili að. Þar má nefna, stefnumörkun UNESCO um almenna menntun og um sjálfbæra þróun, stefnumörkun Evrópuráðsins um lýðræði og mannréttindi og síðast en ekki síst á Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna.

Námsvefurinn barnasattmali.is er því viðleitni til að auðvelda grunnskólum á Íslandi að vinna með og uppfylla þau markmið sem birtast bæði í íslenskum lögum og námskrám og alþjóðlegum samþykktum.

Vefinn er hægt að nýta einan og sér eða sem hluta af annarri fræðslu um mannréttindi. Hvað varðar tengsl efnisins við einstakar námsgreinar grunnskólans, þá má helst nefna námsgreinina lífsleikni. Námsgreininni lífsleikni er öðrum fremur ætlað að takast á við þessi viðfangsefni í menntun barna, en margir þættir tengjast þó öðrum námsgreinum, s.s.samfélagsgreinum, trúarbragðafræði og siðfræði, náttúrufræði og umhverfismennt.

Meginmarkmið með þessum vef er að börn og fullorðnir

 • þekki Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og efni hans,
 • viti að börn eiga sjálfstæð réttindi,
 • átti sig á að börn þurfa sérstaka vernd og umönnun umfram þá sem fullorðnir eru,
 • viti að börn eiga rétt á að láta skoðanir sínar í ljós og hafa áhrif,
 • skilji að Barnasáttmálinn kveður á um jafnræði allra barna.

Á vefnum eru gagnvirk verkefni og fróðleikur fyrir börn og að auki ýmiss konar fróðleikur um Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og mannrréttindi barna, ásamt leiðbeiningum um notkun verkefnanna í skólastarfi. Verkefnin eru tvískipt, annars vegar fyrir yngri börn, sem henta nemendum á aldrinum 5–9 ára og hins vegar verkefni fyrir eldri börn, sem henta nemendum á aldrinum 10–14 ára. Verkefni fyrir yngri börn fjalla um fimm meginviðfangsefni eða þemu. Þau eru eftirfarandi:

 • Réttindi og samábyrgð.
 • Barnasáttmálinn og aðrar skuldbindingar.
 • Barnið sjálft, fjölskylda og þjóðerni.
 • Menntun.
 • Öryggi og vernd.

Verkefnin standa sjálfstæð, en hægt að vinna hvert á eftir öðru eða samþætta öðru efni í skólastarfi. Hér á eftir koma kennsluhugmyndir fyrir verkefni yngri barna.

 

1. þema - Réttindi og forréttindi

Verkefni 1: Réttindi og forréttindi

Markmið
Markmiðið með verkefninu er að börn

 • skilji muninn á réttindum og forréttindum og geti greint þar á milli,
 • átti sig á að öll börn eiga að njóta sömu réttinda, óháð því hvernig þau eru, við hvaða aðstæður þau búa eða hvar þau búa í heiminum.

Bakgrunnsupplýsingar
Í verkefninu eru börnum kynnt ýmis réttindi sem þeim eru tryggð í Barnasáttmálanum og byggist verkefnið aðallega á 2. grein sáttmálans. Mikilvægt er að nemendur átti sig á að öll börn eiga að njóta sömu réttinda, óháð því hver þau eru, hvar þau búa eða hvernig þau líta út, og að óheimilt er að mismuna börnum. Þrátt fyrir að Barnasáttmálinn segi að tryggja eigi öllum börnum sömu grunnréttindi er það staðreynd að það hefur enn ekki tekist í ýmsum ríkjum. Það er jafnframt mismunandi eftir ríkjum hversu mikil réttinda barna eru tryggð samkvæmt lögum.

Hér á landi, og víða annars staðar, njóta börn mismikilla forréttinda. Sem dæmi um réttindi sem öll börn eiga að njóta er fæði og klæði, menntun, heilsuvernd, hvíld, tómstundir, leikir og skemmtanir sem hæfa aldri þeirra og þroska og til frjálsrar þátttöku í menningarlífi og listum. Börn eiga hins vegar ekki rétt á að njóta ákveðinna forréttinda eins og t.d. að fá alltaf uppáhaldsmatinn sinn eða sælgæti, að eiga sérstök leikföng, æfa tilteknar íþróttir eða að ganga í tónlistarskóla. eða að spila á hljóðfæri.

Gögn
Skriffæri, litir, tölva og skjávarpi. Gott er að vinna verkefnið í tölvuveri.

Dæmi um vinnulag
Verkefnið tekur um 1–2 kennslustundir, auk heimavinnu.

 1. Hugflæði um réttindi. Hvað eru réttindi. Nemendur vinni hver fyrir sig eða allur hópurinn saman. „Hvað eru réttindi? Skrifið allt sem ykkur dettur í hug.“
 2. Réttindi og forréttindi útskýrð. Listinn sem börnin sömdu skoðaður og reynt að flokka í réttindi og forréttindi.
 3. Nemendur vinna gagnvirkt verkefni á nemendavef, sem er að finna hér.
 4. Heimaverkefni: Fyrirmæli gætu verið eftirfarandi: „Teiknaðu mynd af einhverjum réttindum og einhverjum forréttindum sem þú hefur og ræddu við foreldra þína. Skrifaðu dæmi um forrréttindi sem þú hefur, en foreldri þitt hafði ekki þegar það var barn.“


Frekari upplýsingar um verkefnið
Verkefnið á nemendasíðunni reynir einkum á eftirfarandi ákvæði Barnasáttmálans:

 • Réttur barna til lífs og þroska, réttur til heilsu og heilsugæslu og réttur til lífsafkomu, sbr. 6., 24. og 27. gr. Barnasáttmálans.
  • Öll börn eiga rétt á því að fá nauðsynlega heilsugæslu.
  • Í réttinum til heilsu og lífsafkomu felst meðal annars réttur allra barna til þess að fá nógu mikið af mat og hreint drykkjarvatn.
  • Það eru hins vegar forréttindi fyrir barn að fá nammi á laugardögum. Sama á við um önnur sætindi, gosdrykki og annað slíkt. Slíkt telst til forréttinda sem aðeins sum börn njóta.
 • Réttur barna til umönnunar og verndar sbr. 18. og 19. gr. Barnasáttmálans.
  • Öll börn eiga rétt á að njóta umönnunar foreldra eða annarra forsjáraðila.
  • Ríki þarf að grípa til ákveðinna ráðstafana þegar foreldrar geta ekki sinnt þessari skyldu sinni og veita börnum viðeigandi vernd.
  • Börn eiga rétt á vernd gegn hvers kyns ofbeldi. Þessi réttur barna er afdráttarlaus og getur aldrei talist til forréttinda.
 • Réttur barna til að ganga í skóla sbr. 28. gr. og 29. gr. Barnasáttmálans.
  • Öll börn eiga rétt á menntun við sitt hæfi, án endurgjalds.
  • Menntun telst þannig til réttinda sem öll börn eiga að njóta. Hins vegar má velta fyrir sér hvort börn í löndum þar sem fátækt er mikil telji það til forréttinda að íslensk börn fara í sund, leikfimi og ýmsar verkgreinar í skólanum.
 • Réttur barna til frítíma, tómstunda og þátttöku í menningarstarfi, sbr. 31. gr. Barnasáttmálans.
  • Öll börn eiga rétt á hvíld, tómstundum og leikjum sem hæfa aldri þeirra og þroska.
  • Einnig ber að tryggja börnum rétt til frjálsrar þátttöku í menningum og listum.
  • Þó að öll börn eigi rétt á því að leika sér eiga þau ekki endilega rétt á því að fá ákveðin leikföng, svo sem leikjatölvu. Slíkt telst til forréttinda.
 • Réttur barna til tjáningar og þátttöku, sbr. 12. og 13. gr. Barnasáttmálans.
  • Börn eiga rétt á að segja sína skoðun. Það á alltaf að taka tillit til skoðana barna í samræmi við aldur þeirra og þroska.
  • Þó að börn eigi rétt á að hafa áhrif á ákvarðanir sem þau varða telst það samt ekki til réttinda barna að gera allt sem þau langar til. Það teljast til dæmis ekki réttindi barns að fá göt í eyrun eða annað slíkt, heldur eru það forréttindi sem foreldrar þurfa að taka ákvörðun um.

Frekari upplýsingar um Barnasáttmálann.

 

 

2. þema – Um Barnasáttmálann og aðrar skuldbindingar

Verkefni 2: Barnasáttmálinn

Markmið
Markmiðið með verkefninu er að börn

 • viti að til er sérstakur samningur um réttindi allra barna og að sá samningur nefnist Barnasáttmálinn,
 • þekki nokkur af helstu réttindum barna og átti sig á inntaki þeirra,
 • átti sig á mikilvægi þess að virða réttindi annarra,
 • þekki vefsíðu, bækling og veggspjald með efni Barnasáttmálans,
 • geti tengt saman texta og myndir um réttindi.

Bakgrunnsupplýsingar
Í þessu verkefni er börnum kynntur Barnasáttmálinn og hvað í honum felst. Forsenda þess að börn fái notið þeirra réttinda sem þeim eru tryggð í Barnasáttmálanum er að þau sjálf, sem og aðrir, þekki inntak hans. Í Barnasáttmálanum er kveðið á um mikilvægi þess að börn séu frædd um réttindi sín og þekki til Barnasáttmálans. Kynna skuli efni hans fyrir börnum og fullorðnum. Öll börn skulu njóta réttinda Barnasáttmálans, óháð uppruna þeirra, búsetu eða öðru sem einkennir þau eða foreldra þeirra. Í öllum ákvörðunum sem varða börn skal alltaf hafa það að leiðarljósi sem börnum er fyrir bestu. Barnasáttmálinn tryggir börnum víðtæk réttindi, svo sem réttinn til lífs og þroska, fjölskyldu, heilsu, menntunar, öryggis, verndar og lýðræðislegrar þátttöku.

Gögn
Tölva og skjávarpi. Gott er að vinna verkefnið í tölvuveri.

Dæmi um vinnulag
Verkefnið tekur 1–2 kennslustundir, auk heimavinnu.

 1. Kennari segir börnunum að til sé samningur um réttindi barna, hann heiti Barnasáttmálinn.
 2. Barnasáttmáli bekkjarins / barnasáttmálinn þinn. Börnin skrifa upp atriði sem þau myndu hafa í sáttmála um réttindi barna. Búa til barnasáttmála bekkjarins.
 3. Nemendur vinna gagnvirkt verkefni á nemendavef, sem er að finna hér.
 4. Barnasáttmáli bekkjarins skoðaður og borinn saman við Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Hvað er líkt og hvað ólíkt?
 5. Heimavinna: Spyrja foreldra hvort þeir þekki Barnasáttmálann. Nemendur fá bækling um Barnasáttmálann með sér heim til að kynna hann fyrir foreldrum sínum.

Frekari upplýsingar um verkefnið
Verkefnið á nemendasíðunni reynir einkum á eftirfarandi ákvæði Barnasáttmálans:

 • Jafnræðisreglan, sbr. 2. gr. Barnasáttmálans.
  • Öll börn eiga að njóta sömu réttinda án mismununar af nokkru tagi.
 • Réttur barna til að þekkja réttindi sín, sbr. 42. gr. Barnasáttmálans.
 • Réttur barna til heilsu og heilsugæslu, sbr. 24. Barnasáttmálans.
  • Öll börn eiga rétt á því að fá bestu mögulegu heilsugæslu.
 • Réttur barna til þess að njóta góðrar umönnunar, sbr. 5. gr., 3. mgr. 9. gr., 18. gr. og 27. gr. Barnasáttmálans.
  • Öll börn eiga rétt á að njóta umönnunar foreldra eða annarra forsjáraðila.
  • Ríki þarf að grípa til ákveðinna ráðstafana þegar foreldrar geta ekki sinnt þessari skyldu sinni og veita börnum viðeigandi vernd.
  • Barn á rétt á að umgangast báða foreldra sína nema það sé andstætt hagsmunum þess.
 • Réttur barna til verndar gegn hvers kyns ofbeldi og misnotkun sbr. 19. gr. og 34. gr. Barnasáttmálans.
  • Ill meðferð á börnum er aldrei réttlætanleg, hvort sem um er að ræða vanrækslu, líkamlegt, andlegt eða kynferðislegt ofbeldi.
 • Réttur barna til tjáningar og þátttöku, sbr. 12. og 13. gr. Barnasáttmálans.
  • Börn eiga rétt á að segja sína skoðun. Það á alltaf að taka tillit til skoðana barna í samræmi við aldur þeirra og þroska.

Frekari upplýsingar um Barnasáttmálann.

 

 

3. þema – Allir eru einstakir

Verkefni 3: Allir eru einstakir

Markmið
Markmið með verkefninu er að börn:

 • viti að öll börn eiga rétt á nafni,
 • átti sig á að allir eru einstakir,
 • skilji mikilvægi þess að fólk fái að halda auðkennum sínum,
 • átti sig á muninum á eiginnafni og kenninafni.

Bakgrunnsupplýsingar
Á yngsta stigi er barnið og nærumhverfi þess viðfangsefnið. Í verkefninu er fjallað um rétt barna til nafns og til að halda persónulegum auðkennum, s.s. nafni, ríkisfangi og fjölskyldutengslum. Áhersla er lögð á að fólk er mismunandi og öll börn eru einstök. Þrátt fyrir fjölbreytilegt mannlíf eiga öll börn að njóta sömu réttinda án tillits til kynþáttar, litarháttar, kynferðis, tungu, trúar, stjórnmálaskoðana, ætternis, fötlunar, félagslegrar stöðu eða annarra aðstæðna þeirra eða stöðu eða athafna foreldra þeirra. Öll börn skulu skráð við fæðingu og skulu bera nafn. Á Íslandi þarf að gefa barni nafn áður en það hefur náð sex mánaða aldri. Barn má bæði kenna við föður og móður.

Gögn
Skriffæri, litir, tölva og skjávarpi. Gott er að vinna verkefnið í tölvuveri.

Dæmi um vinnulag
Verkefnið tekur um 1–2 kennslustundir.

 1. Nemendur vinna gagnvirkt verkefni á nemendavef, sem er að finna hér.
 2. Kennarinn biður nemendur að segja frá þeim persónum sem þeir bjuggu til, til dæmis hvað þær heita og hvað það er sem gerir þær sérstakar.
 3. Kennarinn fjallar um rétt barna til nafns. Munurinn á eiginnafni og kenninafni útskýrður.
 4. Kennarinn skrifar upp nöfn allra barnanna í bekknum. Börnin geta svo velt fyrir sér nöfnum sínum, til dæmis hvort þau séu nefnd í höfuðið á einhverjum. Einnig hægt að ræða hvers vegna það er mikilvægt að eiga sitt eigið nafn.


Frekari upplýsingar um verkefnið
Verkefnið á nemendasíðunni reynir einkum á eftirfarandi ákvæði Barnasáttmálans:

 • Jafnræðisreglan, sbr. 2. gr. Barnasáttmálans.
  • Öll börn eiga að njóta sömu réttinda án mismununar af nokkru tagi.
 • Réttur barna til nafns, sbr. 7. gr. Barnasáttmálans.
 • Réttur barna til að halda persónulegum auðkennum, sbr. 8. gr. Barnasáttmálans.
  • Barn á rétt á því að viðhalda persónulegum auðkennum sínum, svo sem ríkisfangi, nafni og fjölskyldutengslum.

Frekari upplýsingar um Barnasáttmálann.

 

4. þema - Fjölskyldur

Verkefni: Fjölskyldur

Markmið
Markmiðið með verkefninu er að börn:

 • viti að öll börn eiga rétt á að tilheyra fjölskyldu,
 • átti sig á að fjölskyldur eru ólíkar og þekki mismunandi fjölskyldugerðir,
 • viti að börn eiga rétt á að umgangast báða foreldra sína.

Bakgrunnsuplýsingar
Verkefnið er um rétt barna til þess þekkja og njóta umönnunar fjölskyldu sinnar. Fjölskyldur eru mjög mismunandi og er mikilvægt að nemendur átti sig á því. Foreldrar bera meginábyrgð á umönnun og uppeldi barna sinna samkvæmt Barnasáttmálanum og þeim ber að veita börnum sínum leiðsögn og stuðning í samræmi við þroska þeirra. Aðildarríkjum ber að virða ábyrgð, rétt og skyldur foreldra, en ber jafnframt að tryggja foreldrum og fjölskyldum aðstoð og úrræði ef þörf krefur.

Börn eiga rétt á að halda fjölskyldutengslum sínum og umgangast báða foreldra sína, nema það sé andstætt hagsmunum þeirra og velferð. Séu foreldrar ekki til staðar eða ekki færir um að annast börn sín, er barnaverndaryfirvöldum skylt sjá til þess að barnið fái annað heimili og umönnun, s.s. fóstur eða ættleiðingu. Alltaf skal það sem barninu er fyrir bestu haft að leiðarljósi við slíkar ákvarðanir.

Gögn
Skriffæri, litir, tölva og skjávarpi. Gott er að vinna verkefnið í tölvuveri.

Dæmi um vinnulag
Verkefnið tekur um 1-2 kennslustundir, auk heimavinnu.

 1. Kennarinn getur látið nemendur velta fyrir sér spurningunni: „Hvað er fjölskylda?“
 2. Nemendur vinna gagnvirkt verkefni á nemendavef, sem er að finna hér.
 3. Ýmis hugtök sem tengjast fjölskyldum rædd, svo sem pabbi, mamma, stjúppabbi, stjúpmamma, fósturforeldrar, afi, amma, systir, bróðir o.s.frv.
 4. Heimavinna eða verkefni í tíma: Nemendur teikna sína eigin fjölskyldu.

Frekari upplýsingar um verkefnið
Verkefnið á nemendasíðunni reynir einkum á eftirfarandi ákvæði Barnasáttmálans:

 • Jafnræðisreglan, sbr. 2. gr. Barnasáttmálans.
  • Öll börn eiga að njóta sömu réttinda án mismununar af nokkru tagi.
  • Fjölskyldur eru eins misjafnar og þær eru margar. Allar fjölskyldur eru jafngóðar, sama hvernig þær eru.
 • Réttur barna til þess að njóta góðrar umönnunar, sbr. 5. gr., 3. mgr. 9. gr., 18. gr. og 27. gr. Barnasáttmálans.
  • Öll börn eiga rétt á að njóta umönnunar foreldra eða annarra forsjáraðila.
  • Ríki þarf að grípa til ákveðinna ráðstafana þegar foreldrar geta ekki sinnt þessari skyldu sinni og veita börnum viðeigandi vernd.
  • Barn á rétt á að umgangast báða foreldra sína nema það sé andstætt hagsmunum þess.

Nánari upplýsingar Barnasáttmálann.

 

5. þema – Skólinn

Verkefni: Skóli

Markmið
Markmiðið með verkefninu er að börn

 • viti að öll börn eiga rétt á því að njóta menntunar og ganga í skóla,
 • átti sig á því að með menntun og skólagöngu öðlast fólk ýmsa færni og þekkingu sem hjálpar því í lífinu,
 • viti að allir eiga rétt á námi við hæfi og aðstoð ef þeir þurfa,
 • átti sig á að ekki fá öll börn í heiminum að ganga í skóla,
 • kynnist með sögum og dæmum mismunandi aðstæðum barna í heiminum hvað varðar menntun og skólagöngu og reyni að setja sig í spor þeirra.

Bakgrunnsupplýsingar
Á yngsta stigi er barnið og nærumhverfi þess viðfangsefnið. Áhersla er lögð á að öll börn skuli njóta sömu réttinda, óháð því hver þau eru, hvar þau búa eða hvernig þau líta út. Verkefnið er um rétt allra barna til þess að njóta menntunar og ganga í skóla. Rétturinn til menntunar og skólagöngu hefur ítrekað verið settur fram í alþjóðasamningum og ályktunum þjóða heims. Rétturinn til menntunar er sérstaklega tryggður í 28. og 29. gr. Barnasáttmálans. Árið 2000 settu Sameinuðu þjóðirnar fram svokölluð aldamótamarkmið. Eitt af þeim var að árið 2015 ættu öll börn heimsins að vera í skóla og njóta gæðamenntunar. Enn er þó langt í land að því markmiði verði náð. Árið 2009 voru um 75 milljónir barna í heiminum án skólagöngu. Stærsti hluti þeirra barna, eða um 40 milljónir, eru börn sem búa í stríðshrjáðum löndum. Barnaheill – Save the Children, UNICEF og önnur mannréttindasamtök hafa vakið athygli á þessu broti á réttindum barna og eru jafnframt að vinna að uppbyggingu skóla og menntunar barna í þessum löndum. Barnaheill á Íslandi vinna að uppbyggingu menntunar í Kambódíu og Úganda og UNICEF á Íslandi vinnur svipuð verkefni í Sierra Leone og Gínea Bissá.

Gögn
Skriffæri, litir, tölva og skjávarpi. Gott er að vinna verkefnið í tölvuveri.

Dæmi um vinnulag
Verkefnið tekur um 1–2 kennslustundir.

Dæmi um vinnulag

 1. Nemendur vinna gagnvirkt verkefni á nemendavef, sem er að finna hér.
 2. Kennarinn biður nemendur að velta fyrir sér hvað felist í því að vera í skóla. Hvað er skóli? Af hverju eru börn í skóla? Af hverju eru ekki öll börn í skóla? Hvað er gert í skóla? Hvað læra börn í skóla? Hvernig er góður skóli? Hvernig ættu skólar að vera?
 3. Börnin teikna skóla eins og þau vilja hafa hann.
 4. Umræður: Hvað er líkt og ólíkt með myndum nemenda? Hvers vegna ætli þau hafi ólíkar hugmyndir um skóla. Að hvaða leyti er þeirra skóli ólíkur skólum í Kambódíu og Sierra Leone?

Frekari upplýsingar um verkefnið
Verkefnið á nemendasíðunni reynir einkum á eftirfarandi ákvæði Barnasáttmálans:

 • Réttur barna til að ganga í skóla og njóta menntunar við sitt hæfi sbr. 28. gr. og 29. gr. Barnasáttmálans.

Frekari upplýsingar um Barnasáttmálann.