Print

Um vefinn

Mikilvægt er að börn og fullorðnir þekki mannréttindi barna og Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Því hafa Barnaheill – Save the Children á Íslandi, UNICEF á Íslandi og umboðsmaður barna, í samstarfi við Námsgagnastofnun búið til námsvef um Barnasáttmálann. Vefurinn er aðallega ætlaður til notkunar í grunnskólum, en hentar einnig öllum almenningi, bæði börnum utan skólatíma og fullorðnum. Verkefnið er styrkt af forsætisráðuneytinu.

Á vefnum er fróðleikur og gagnvirk verkefni fyrir nemendur og ýmsar upplýsingar fyrir kennara og foreldra um Barnasáttmálann og réttindi barna, ásamt kennsluhugmyndum. Efnið er hægt að nýta eitt og sér eða sem hluta af annarri mannréttindafræðslu. Á vefsvæði fyrir yngri börn eru fimm verkefni. Á vefsvæði fyrir eldri börn er farið í leiðangur um Réttindaeyjuna, þar sem nemendur leysa verkefni á samtals 16 reitum með hjálp sögumanna sem nefnast Réttur og Réttlát.

Samingur Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, eða Barnasáttmálinn, er eini alþjóðlegi samningurinn sem sérstaklega á við um börn. Samningurinn felur í sér alþjóðlega viðurkenningu á að börn heimsins þarfnist sérstakrar verndar umfram hina fullorðnu. Hann er alþjóðleg viðurkenning á því að börn séu sjálfstæðir einstaklingar með fullgild réttindi óháð réttindum fullorðinna. Öllum þeim sem koma að málefnum barna ber að gera það sem í þeirra valdi stendur til að framfylgja samningnum. Hér er átt við stjórnvöld, foreldra, skóla og alla aðra sem vinna með börnum eða fyrir börn.

Verkefnisstjórn: Barnaheill – Save the Children á Íslandi; Margrét Júlía Rafnsdóttir.

Hugmyndavinna: Margrét Júlía Rafnsdóttir frá Barnaheillum – Save the Children á Íslandi, Bergsteinn Jónsson og Ólöf Magnúsdóttir frá UNICEF á Íslandi, Elísabet Gísladóttir frá umboðsmanni barna og Aldís Yngvadóttir frá Námsgagnastofnun.

Höfundur texta, verkefna og kennsluhugmynda: Margrét Júlía Rafnsdóttir.
Ólöf Magnúsdóttir er höfundur texta um Nhial frá Súdan og Raweyu frá Egyptalandi.

Ritstjórn: Aldís Yngvadóttir, Margrét Júlía Rafnsdóttir, Bergsteinn Jónsson, Ólöf Magnúsdóttir, Elísabet Gísladóttir og Bára Sigurjónsdóttir.

Fagleg ráðgjöf: Aldís Yngvadóttir og Hildigunnur Halldórsdóttir.

Forritun og umsjón með gerð vefjar: Elan margmiðlun ehf.; Ásgerður Edda Langworth.

Vefhönnun: Bjarney Hinriksdóttir

Forritun á gagnvirkum verkefnum: Guðný Þorsteinsdóttir.

Teikningar:

  • Yngra stig: Þórarinn Leifsson.
  • Eldra stig: Karl Jóhann Jónsson.

Hljóðvinnsla:

  • Yngra stig: Ingimar Oddsson.
  • Eldra stig: Hafsteinn Már Sigurðsson.

Upplestur:

  • Yngra stig: Tinna Lind Gunnarsdóttir og Ingimar Oddsson.
  • Eldra stig: Anna Ingólfsdóttir og Ólafur Þórðarson.


Barnaheill
Barnaheill – Save the Children á Íslandi eru frjáls félagasamtök, sem vinna að réttindum og velferð barna hér á landi og erlendis og hafa barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna að leiðarljósi í öllu sínu starfi. Samtökin eiga aðild að alþjóðasamtökunum Save the Children, sem voru stofnuð í Bretlandi árið 1919. Í alþjóðasamtökunum eru nú 29 landsfélög sem starfa í 120 löndum víða um heim. Helstu áherslur og verkefni samtakanna eru almenn réttindabarátta í þágu barna, barátta gegn ofbeldi á börnum, heilbrigðismál, þátttaka barna, heilbrigðismál, menntun barna í stríðshrjáðum löndum og neyðaraðstoð.

UNICEF á Íslandi
Íslenska UNICEF landsnefndin er sjálfseignarstofnun sem vinnur að fjáröflun fyrir UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, ásamt því að standa að fræðslu um starfsemi UNICEF og réttindi barna. Í 60 ár hefur UNICEF verið leiðandi í hjálparstarfi fyrir börn. UNICEF starfar á vettvangi í nær 160 löndum og svæðum og stendur vörð um líf barna frá fæðingu til fullorðinsára. UNICEF útvegar flestar bólusetningar til barna í þróunarlöndunum, styður heilsugæslu- og næringarverkefni fyrir börn, veitir börnum menntun og vernd gegn ofbeldi, misnotkun og HIV/alnæmi.

Umboðsmaður barna
Samkvæmt lögum um umboðsmann barna nr. 83/1994 er hlutverk hans að vinna að vinna að bættum hag barna og standa vörð um hagsmuni, þarfir og réttindi þeirra. Umboðsmanni barna er ætlað að hafa frumkvæði að stefnumarkandi umræðu um málefni barna, koma með tillögur til úrbóta á réttarreglum og fyrirmælum stjórnvalda, er varða börn sérstaklega. Þá er honum ætlað að stuðla að því að virtir séu þeir þjóðréttarsamningar sem snerta réttindi og velferð barna og Ísland er aðili að.

Námsgagnastofnun
Hlutverk Námsgagnastofnunar er að leggja grunnskólum til námsgögn í samræmi við meginmarkmið náms og kennslu á grunnskólastigi samkvæmt grunnskólalögum og aðalnámskrá. Stofnunin ber ábyrgð á gerð, útgáfu, framleiðslu og dreifingu námsgagna, sem hún framleiðir, í samræmi við ákvæði laga um námsgögn. Námsgagnastofnun gefur út margs konar námsgögn fyrir grunnskóla, kennslubækur, vinnubækur, kennsluleiðbeiningar, hljóðbækur, fræðslumyndir, handbækur og vefefni. Fjölmargir gagnvirkir vefir eru opnir öllum landsmönnum á vef stofununarinnar.