Barnasáttmálinn á barnvænu máli

1. HUGTAKIÐ BARN
Barn er einstaklingur undir 18 ára aldri. 

 

2. ÖLL BÖRN ERU JÖFN
Öll börn eiga að njóta allra réttinda Barnasáttmálans án tillits til hver þau eru, hvar þau búa, hvaða tungumál þau tala, á hvað þau trúa, hvernig þau hugsa og líta út, af hvaða kyni þau eru, hvort þau eru fötluð, rík eða fátæk og án tillits til þess hvað fjölskylda þeirra gerir eða trúir á. Aldrei skal koma fram við barn af óréttlæti.

3. ÞAÐ SEM BARNINU ER FYRIR BESTU
Þegar fullorðnir taka ákvarðanir eiga þeir að hugsa um hvaða áhrif þær hafa á börn og eiga að gera það sem er best fyrir þau. Stjórnvöld eiga að tryggja að foreldrar verndi börn sín og gæti þeirra eða aðrir í þeirra stað þegar þörf er á. Stjórnvöld eiga að sjá til þess að fólk sem ábyrgt er fyrir börnum hafi hagsmuni þeirra alltaf að leiðarljósi og staðir sem ætlaðir eru börnum uppfylli einnig þær skyldur.

4. RÉTTINDI GERÐ AÐ VERULEIKA
Stjórnvöld þurfa að gera allt sem í þeirra valdi stendur til að sjá til þess að hvert og eitt barn njóti allra réttinda Barnasáttmálans.

5. LEIÐSÖGN FJÖLSKYLDU
Fjölskyldur bera ábyrgð á að leiðbeina börnum sínum og fræða þau um réttindi sín. Eftir því sem börn verða eldri hafa þau minni þörf fyrir leiðsögn fjölskyldna sinna. Stjórnvöld skulu virða ábyrgð, réttindi og skyldur fjölskyldna.

6. LÍF OG ÞROSKI
Öll börn eiga rétt á því að lifa og þroskast og skulu stjórnvöld tryggja það.

7. NAFN OG RÍKISFANG
Börn skal skrá við fæðingu og þau eiga rétt á nafni og ríkisfangi – að tilheyra landi. Alltaf þegar hægt er skulu börn þekkja foreldra sína og njóta umönnunar þeirra.

8. PERSÓNULEG AUÐKENNI
Börn eiga rétt á sínum eigin auðkennum – sem skráð skulu opinberlega, um hver þau eru, m.a. nafn, þjóðerni og fjölskyldutengsl. Ekki má taka frá börnum auðkenni þeirra og ef það er gert skulu stjórnvöld aðstoða við að bæta úr því.

9. TENGSL VIÐ FJÖLSKYLDU
Ekki skal skilja börn frá foreldrum sínum nema þegar það er nauðsynlegt fyrir öryggi og líðan barna – til dæmis ef foreldri meiðir barn eða hugsar ekki vel um það að öðru leyti. Börn eiga rétt á því að vera í góðum tengslum við báða foreldra sína ef þeir búa ekki saman nema það sé talið skaðlegt fyrir þau.

10. TENGSL VIÐ FORELDRA Í ÖÐRUM LÖNDUM
Ef barn býr í öðru landi en foreldrar þess eiga stjórnvöld að leyfa barni og foreldrum að ferðast frjálst svo þau geti haldið sambandi og verið saman.

11. VERND GEGN BROTTNÁMI
Stjórnvöld eiga að tryggja að ekki sé farið ólöglega með börn úr landi, til dæmis að börnum sé ekki rænt eða þeim haldið erlendis.

12. VIRÐING FYRIR SKOÐUNUM BARNA
Börn eiga rétt á því að tjá sig frjálslega um öll málefni sem hafa áhrif á líf þeirra. Fullorðnir eiga að hlusta og taka mark á þeim.

13. FRELSI TIL AÐ DEILA HUGMYNDUM SÍNUM
Börn eiga rétt á því að deila skoðunum sínum, vitn- eskju og hvernig þeim líður með öðrum með því að tala, teikna eða tjá sig á annan hátt, svo lengi sem það hefur ekki skaðleg áhrif á annað fólk.

14. SKOÐANA- OG TRÚFRELSI
Börn eiga rétt á frjálsri hugsun og að velja sér trúarbrögð og eigin hugmyndir, svo lengi sem það hindrar ekki aðra í að njóta réttinda sinna. Í uppeldi geta foreldrar leiðbeint börnum sínum um hvernig megi nýta þessi réttindi að fullu.

15. FÉLAGAFRELSI
Börn eiga rétt á því að stofna sín eigin félög og hópa og þau mega hitta vini og félaga, svo lengi sem það brjóti ekki gegn réttindum annarra.

16. PERSÓNUVERND OG EINKALÍF
Öll börn eiga rétt á einkalífi. Lögin eiga að vernda einkalíf barna, fjölskyldur og heimili. Börn eiga líka rétt á því að samskipti þeirra við aðra, orðspor þeirra og fjölskyldna þeirra sé verndað með lögum.

17. AÐGENGI AÐ UPPLÝSINGUM
Börn eiga rétt á því að sækja upplýsingar af Internetinu, úr sjón- varpi, útvarpi, tímaritum, bókum og öðrum miðlum. Fullorðnir eiga að gæta þess að upplýsingarnar séu börnum ekki skaðlegar. Stjórnvöld eiga að hvetja útgefendur og fjölmiðla til þess að deila upplýsingum með fjölbreyttum leiðum sem öll börn skilja.Col 1

18. ÁBYRGÐ FORELDRA
Foreldrar bera aðalábyrgð á uppeldi barna sinna. Þegar barn á ekki foreldra tekur annað fullorðið fólk við ábyrgðinni á uppeldi barnsins. Þeir sem annast uppeldi eiga að meta og taka tillit til þess sem er barninu fyrir bestu og eiga stjórnvöld að hjálpa og leiðbeina þeim. Þegar barn á tvo foreldra bera þeir almennt báðir ábyrgð á uppeldi barnsins.

19. VERND GEGN OFBELDI
Stjórnvöld eiga að vernda börn gegn ofbeldi, misbeitingu og vanrækslu af hendi allra þeirra sem annast þau.

20. UMÖNNUN UTAN FJÖLSKYLDU
Barn sem ekki nýtur umönnunar fjölskyldu sinnar á rétt á því að hugsað sé um það af fólki sem ber virðingu fyrir trúarskoðunum þess, menningu, tungumáli og öðru sem varðar líf barnsins.

21. ÆTTLEIDD BÖRN
Þegar börn eru ættleidd er mikilvægt að það sem er barni fyrir bestu sé haft að leiðarljósi við alla ákvarðanatöku. Ef ekki er hægt að veita barni umönnun og fullnægjandi uppeldisaðstæður í heimalandi þess getur komið til ættleiðingar milli landa.

22. BÖRN SEM FLÓTTAMENN
Börn sem þurfa að flýja heimaland sitt sem flóttamenn eiga rétt á vernd og stuðningi við að nýta sér þau réttindi sem þau eiga samkvæmt Barnasáttmálanum í nýja landinu.

23. FÖTLUÐ BÖRN
Fötluð börn eiga rétt á því að lifa við aðstæður sem gerir þeim kleift að lifa eins góðu lífi í samfélaginu og völ er á. Stjórnvöld eiga að fjarlægja hindranir svo öll börn geti orðið sjálfstæð og tekið þátt í samfélaginu með virkum hætti.

24. HEILSUVERND, VATN, MATUR, UMHVERFI
Börn eiga rétt á bestu heilbrigðisþjónustu sem völ er á, hreinu drykkjarvatni, hollum mat og hreinu og öruggu umhverfi. Allir eiga að fá upplýsingar um hvernig sé hægt að lifa öruggu og heilbrigðu lífi.

25. EFTIRLIT MEÐ VISTUN BARNA UTAN HEIMILIS
Börn sem hafa verið vistuð utan heimilis, þeim til verndar, umönnunar eða af heilsufarsástæðum, eiga rétt á því að meðferð þeirra og allar aðrar aðstæður séu kannaðar reglu- lega til þess að ganga úr skugga um að allt gangi vel og að það sé enn best fyrir barnið að vera vistað á viðkomandi stað.

26. FÉLAGSLEG OG EFNAHAGSLEG AÐSTOÐ
Börn sem búa við fátækt eiga rétt á aðstoð. Stjórnvöld skulu tryggja þann rétt með því að útvega peninga og annars konar stuðning.

 

27. NÆRING, FÖT OG ÖRUGGT HEIMILI
Börn eiga rétt á því að fá næringu, fatnað og öruggt heimili svo þau geti þroskast á sem bestan hátt. Stjórnvöld eiga að aðstoða fjölskyldur sem hafa ekki kost á því að veita börnum framangreint.

28. AÐGANGUR AÐ MENNTUN
Öll börn eiga rétt á menntun. Grunnmenntun á að vera ókeypis og öll börn eiga að hafa aðgang að framhaldsmenntun. Hvetja á börn til þess að mennta sig. Aldrei má beita barn ofbeldi eða niðurlægja það, svo sem vegna brota á skólareglum.

29. MARKMIÐ MENNTUNAR
Menntun á að hjálpa börnum að læra að rækta sjálfsmynd sína, hæfileika og færni. Hún á að kenna þeim að þekkja réttindi sín og að virða réttindi annarra, menningu þeirra og fjölbreytileika. Menntun á að hjálpa þeim að lifa friðsamlega og að vernda náttúruna.

30. MENNING, TUNGUMÁL, TRÚARBRÖGÐ MINNIHLUTAHÓPA
Börn eiga rétt á að iðka eigin trú, tala sitt tungumál og viðhalda menningu sinni.

31. HVÍLD, LEIKUR, MENNING OG LISTIR
Öll börn eiga rétt á hvíld, leik og að taka þátt í menningarlífi.

32. VERND GEGN SKAÐLEGRI VINNU
Börn eiga rétt á vernd gegn því að vinna hættuleg störf eða störf sem eru slæm fyrir skólagöngu þeirra, heilsu eða þroska. Ef börn stunda vinnu eiga þau rétt á því að gera það í öryggi og að fá sanngjörn laun fyrir.

33. VERND GEGN SKAÐLEGUM VÍMUEFNUM
Stjórnvöld eiga að vernda börn gegn því að nota, búa til, bera á sér eða selja skaðleg vímuefni.

34. VERND GEGN KYNFERÐISOFBELDI
Stjórnvöld eiga að vernda börn gegn kynferðisofbeldi, þar með talið að vernda þau fyrir því að vera neydd í vændi, að teknar séu kynferðislegar myndir eða gerð kynferðisleg myndbönd af þeim.

35. VERND GEGN BROTTNÁMI, VÆNDI OG MANSALI
Stjórnvöld eiga að tryggja að börn séu ekki numin á brott, seld, eða flutt til annarra landa eða staða til að láta þau vinna og þræla án launa.

36. VERND GEGN MISBEITINGU
Stjórnvöldum ber að vernda börn gegn hvers kyns annarri misbeitingu.

37. BÖRN Í HALDI
Börn sem sökuð eru um að brjóta lög má ekki lífláta, pynta, koma grimmilega fram við, fangelsa til lífstíðar eða fangelsa með fullorðnum. Fangelsi skal alltaf vera síðasti valkostur og einungis í stysta mögulega tíma. Börn í fangelsum skulu fá lögfræðiaðstoð og fá að vera í tengslum við fjölskyldu sína.

38. VERND Í STRÍÐI
Börn eiga rétt á vernd í stríði. Ekkert barn yngra en 15 ára á að sinna herþjónustu eða taka þátt í stríði.

39. BATI OG AÐLÖGUN
Börn eiga rétt á því að fá hjálp ef þau hafa meiðst eða verið særð, vanrækt, komið hefur verið illa fram við þau eða þau orðið fyrir áhrifum af stríði svo þau nái aftur heilsu og reisn.

40. BÖRN SEM BRJÓTA LÖG
Börn sem sökuð eru um að hafa brotið lög eiga rétt á lögfræðiaðstoð og réttlátri málsmeðferð. Fyrir hendi eiga að vera mörg viðeigandi úrræði og tækifæri til að hjálpa þeim börnum að verða virkir þátttakendur í samfélaginu. Fangelsi skal vera síðasta úrræðið.

41. BESTU LÖGIN GILDA
Ef lög landsins vernda rétt barna betur en Barnasáttmálinn á að styðjast við þau.

42. ALLIR VERÐA AÐ ÞEKKJA RÉTTINDI BARNA
Stjórnvöld skulu fræða börn og fullorðna um Barnasáttmálann reglulega svo allir þekki réttindi barna.

43.– 54. HVERNIG BARNASÁTTMÁLINN VIRKAR
Þessar greinar segja frá því hvernig stjórnvöld, Sameinuðu þjóðirnar, Barnaréttarnefnd
Sameinuðu þjóðanna og fleiri stofnanir og félög starfa til að tryggja að öll börn njóti sinna réttinda.