Þegar rætt er við börn um réttindi þeirra er líklegt að börn tjái sig um stöðu sína og almenna líðan. Mögulega vakna upp grunsemdir hjá kennara um að brotið sé á barni á einhvern hátt og þá er mikilvægt að kennarar bregðist rétt við.
Hér koma nokkur atriði sem getur verið gott fyrir kennara að hafa í huga ef slíkar aðstæður koma upp:
- Mikilvægt er að hlusta á mismunandi svör barnanna
- Forðast þarf að draga ályktanir of snemma um hvað barnið er að segja
- Viðbrögðin sem þeir fullorðnu sýna þegar barn segir frá skipta miklu máli. Forðast þarf að fara í tilfinningalegt uppnám, barnið þarf á rósemd og hlýju að halda frá þeim fullorðna
- Ef barn er í vafa hvort það sé að gera rétt með því að segja frá getur verið gott að útskýra fyrir barninu að:
- góð leyndarmál eru leyndarmál sem fela í sér eitthvað skemmtilegt eins og að gleðja einhvern með því að koma honum á óvart, gefa gjöf eða annað og það megi alltaf segja frá leyndarmálinu síðar því það eigi alltaf að komast upp að lokum
- slæm leyndarmál eru hins vegar leyndarmál, sem einhver vill að komist aldrei upp
- Oft reynir sá sem brýtur á rétti barns að fá það til að segja ekki frá og það sé leyndarmál. Mikilvægt er að hvetja börn til að segja frá slíkum leyndarmálum, slæmum leyndarmálum.
- Muna að þakka barninu fyrir að leita til þín og treysta þér fyrir því sem það er að segja. Það er líklegt að barnið þurfti að safna miklu hugrekki til að leita til þín
- Gera þarf börnum grein fyrir að þau bera aldrei ábyrgð á því misrétti sem þeim er sýnt. Þó er mikilvægt að styrkja börn í að setja sér mörk og að ræða tilfinningar sínar
- Foreldrar bera megin ábyrgð á uppeldi og vernd barna sinna, en allir sem vinna með börnum svo og samborgarar bera einnig mikla ábyrgð
- Alltaf skal hafa í huga að BÖRNIN EIGA ALLTAF AÐ FÁ AÐ NJÓTA VAFANS