Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, eða Barnasáttmálinn, er eini alþjóðlegi samningurinn sem sérstaklega á við um börn. Samningurinn felur í sér alþjóðlega viðurkenningu á að börn heimsins þarfnist sérstakrar verndar umfram hina fullorðnu. Hann er alþjóðleg viðurkenning á því að börn séu sjálfstæðir einstaklingar með fullgild réttindi óháð réttindum fullorðinna. Öllum þeim sem koma að málefnum barna ber að gera það sem í þeirra valdi stendur til að framfylgja samningnum. Hér er átt við stjórnvöld, foreldra, skóla og alla aðra sem vinna með börnum eða fyrir börn.
Foreldrum ber að tryggja velferð barna sinna. Þeim ber að sjá til þess að barnið hafi fullnægjandi húsaskjól, fæði og klæði og að það búi almennt við þroskavænleg skilyrði. Þá ber foreldrum að annast barn sitt og sýna því umhyggju og virðingu og vernda það fyrir hvers kyns andlegu og líkamlegu ofbeldi og annarri vanvirðandi háttsemi.
Foreldrar ættu að leggja sig fram við að upplýsa börn sín um réttindi þeirra og skyldur. Mikilvægur þáttur af því er að kynna fyrir þeim inntak og áherslur Barnasáttmálans.
Fyrir lögfestingu Barnasáttmálans var íslenska ríkið skuldbundið til að uppfylla ákvæði sáttmálans en þó var sjaldan vitnað í hann við úrlausn mála hjá stjórnvöldum og dómstólum og dæmi voru um að dómar hafi beinlínis verið í andstöðu við ákvæði hans. Var lögfestingin því mikilvæg til að tryggja beitingu hans í framkvæmd og bein réttaráhrif.
Barnasáttmálinn hefur að geyma víðtæk réttindi og kveður á um vernd grundvallarmannréttinda barna, svo sem réttinn til lífs og friðhelgi fjölskyldu- og einkalífs. Jafnframt leggur hann skyldur á aðildarríkin að grípa til aðgerða til að tryggja þau réttindi. Samkvæmt Barnasáttmálanum ber aðildarríkjunum að kynna efni hans með virkum hætti fyrir börnum sem og fullorðnum en það er mikilvæg forsenda þess að börn og aðrir í samfélaginu þekki rétt sinn.
Um hlutverk og þátt foreldra í umönnun og vernd barna er sérstaklega fjallað í eftirfarandi greinum hans:
5. grein – um hlutverk foreldra?
9. grein – um rétt barns til að vera ekki skilið frá foreldrum sínum
10. grein – um fjölskyldusameiningu
14. grein – um rétt barns til frjálsrar hugsunar, sannfæringar og trúar
18. grein – um sameiginlega ábyrgð foreldra á að ala barn upp og koma því til þroska
23. grein – um réttindi fatlaðra barna
24. grein – um rétt barna til besta heilsufars sem hægt er að tryggja
27. grein – um rétt barna til nægjanlegrar lífsafkomu
Að þessum greinum frátöldum er mikilvægt fyrir foreldra að þekkja öll réttindi barna sem Barnasáttmálinn kveður um, því þau eru innbyrðis tengd og hverju öðru háð.
Hér má finna heildartexta Barnasáttmálans