Saga Barnasáttmálans

Saga Barnasáttmálans – Fyrir fullorðna
Hér má finna sögu Barnasáttmálans fyrir börn

Fyrsta alþjóðlega yfirlýsingin sem viðurkenndi réttindi barnsins var samþykkt af Þjóðabandalaginu árið 1924 og kallaðist hún Genfaryfirlýsingin. Hún var byggð á stefnuyfirlýsingu alþjóðasamtaka Barnaheilla – Save the Children. Með yfirlýsingunni var í fyrsta sinn til skriflegt skjal um viðurkenningu á alþjóðlegum skuldbindingum til verndar öllum börnum burtséð frá uppruna þeirra, menningu eða öðru. Um fimm meginreglur var að ræða um verndun og velferð barna og var Genfaryfirlýsingin svohljóðandi:

Gefa þarf barni þau úrræði sem nauðsynleg eru til eðlilegs þroska þess, bæði efnisleg og andleg.

  • Barn sem er hungrað þarf að fæða, barn sem er veikt þarf að hlúa að, barn sem er seinþroska þarf að hjálpa, barn sem er vanrækt þarf að aðstoða og barn sem er munaðarlaust þarf að veita skjól og stuðning.
  • Barn á að fá aðstoð á undan öðrum á neyðartímum.
  • Barni þarf að tryggja lífsafkomu og vernda það gegn hvers konar ofbeldi og vanrækslu.
  • Barn þarf að ala upp meðvitað um eigin styrkleika og ber að nota þá í því samfélagi sem það býr í.

Yfirlýsingin var viljayfirlýsing en ekki lagalega bindandi skjal fyrir þau ríki sem skrifuðu undir hana. Þrátt fyrir það hafði hún mikla þýðingu, hún var upphafið að nýjum hugsunarhætti og viðmóti gagnvart börnum í samfélaginu.

Í kjölfar seinni heimsstyrjaldarinnar var talið nauðsynlegt að gera Genfaryfirlýsinguna víðtækari. Börn urðu illa úti í stríðinu, en hinar stríðandi fylkingar litu svo á að þær bæru ekki ábyrgð á börnunum í löndum óvina sinna. Ný yfirlýsing sem var gerð tók því tillit til reynslunnar úr stríðinu og boðaði að börn ættu að njóta verndar og umönnunar óháð þjóðerni, trúarskoðunum og uppruna. Hlutverk fjölskyldunnar í lífi barna var jafnframt skilgreint í nýju yfirlýsingunni.

Þann 20. nóvember árið 1959 var sérstök yfirlýsing um réttindi barnsins samþykkt á vettvangi Sameinuðu þjóðanna. Dagurinn hefur síðan verið tileinkaður málefnum barna ár hvert og er alþjóðlegur dagur barna. Yfirlýsingin byggðist að mestu á Genfaryfirlýsingunni, bætti ekki miklu efnislega við en fól hins vegar í sér frekari útfærslu á henni. Hvorug yfirlýsingin fól þó í sér að réttindi barnsins væru formlega bindandi að þjóðarrétti.

Á síðari hluta 20. aldarinnar hafði viðhorf samfélagsins til barna tekið miklum stakkaskiptum frá tímum seinni heimstyrjaldarinnar. Staða barna í samfélaginu var orðin önnur, ráðandi hugarfar var að æskan væri sérstaklega mikilvægt tímabil í þroska hvers einstaklings, en ekki eingöngu „farartæki“ í átt að því að verða fullorðinn einstaklingur. Fjölskyldan og samfélagið allt var jafnframt farið að spila stórt hlutverk í uppeldi og umönnun barna. Í ljósi þessa var talið nauðsynlegt að skilgreina réttindi barna með víðtækari hætti og binda réttindin í alþjóðalög. Úr varð að Pólland lagði til, á alþjóðlegu ári barnsins 1979, að Sameinuðu þjóðirnar hæfu vinnu við gerð sérstaks mannréttindasáttmála fyrir börn. 

Vinnan við sáttmálann tók 10 ár og krafðist mikils samstarfs af hálfu aðildarríkja Sameinuðu þjóðanna. Sáttmálinn varð svo að veruleika þann 20. nóvember árið 1989 þegar hann var samþykktur á Allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna. Í dag er Barnasáttmálinn útbreiddasti mannréttindasáttmáli heims, en einungis eitt ríki stendur fyrir utan hann eins og áður sagði, það eru Bandaríkin.

Sýn Barnasáttmálans á stöðu barnsins í samfélaginu er um margt byltingarkennd. Sáttmálinn gengur út frá því að litið sé á barnið sem fullgildan þjóðfélagsþegn með sjálfstæð réttindi þrátt fyrir ungan aldur, reynsluleysi og takmarkaðan þroska. Þannig undirstrikar sáttmálinn að æskan sé sérstaklega viðkvæmt tímabil í lífi hvers einstaklings en samfélaginu beri engu að síður að sýna börnum virðingu.

Íslensk stjórnvöld fullgiltu Barnasáttmálann þann 27. nóvember árið 1992 og var hann lögfesturþann 20. febrúar árið 2013. Þó að Barnasáttmálinn hafi þá verið fullgiltur hér á landi í rúmlega 20 árog íslenska ríkið því skuldbundið af ákvæðum hans var sjaldan vitnað í hann við úrlausn mála hjá stjórnvöldum og dómstólum. Í kjölfar lögfestingar öðlaðist Barnasáttmálinn sömu lagalegu stöðu og önnur íslensk löggjöf, t.d. barna- og skólalög. Lögfesting Barnasáttmálans var því mikilvæg til að tryggja að sáttmálanum væri beitt í auknum mæli og hefði bein áhrif á íslenskt samfélag.

Á þeim árum sem liðin eru frá því Barnasáttmálinn var samþykktur hefur hann orðið vel þekkt skjal. Þrátt fyrir það erum við reglulega minnt á að enn er langt í land til að uppfylla réttindin sem sáttmálinn tilgreinir. Einhver helsta áskorunin sem við stöndum frammi fyrir á Íslandi er að auka þekkingu á innihaldi sáttmálans.

Grundvallarforsenda fyrir innleiðingu Barnasáttmálans er að fólk, börn jafnt sem fullorðnir, þekki réttindi barna og geti sett þau í samhengi við líf og starf og í allri ákvarðanatöku. Barnaréttarnefnd Sameinuðu þjóðanna, sem er eftirlitsaðili Barnasáttmálans, hefur lagt sérstaka áherslu á að fagstéttir sem vinni með börnum fái fræðslu um sáttmálann jafnt sem verkfæri til að vinna með hann í starfi sínu.

Í viðleitni til að kynna Barnasáttmálann sem víðast var vefurinn barnasattmali.is opnaður árið 2012 af Barnaheillum – Save the Children á Íslandi, Umboðsmanni barna og Unicef í samstarfi við Námsgagnastofnun. Á vefnum var að finna ýmsa fræðslu og kennsluleiðbeiningar um Barnasáttmálann auk þess sem gefin voru út veggspjöld og bæklingar um sáttmálann. Vefurinn var endurgerður og nýjar kennsluleiðbeiningar voru gerðar árið 2020 af sömu samtökum í samstarfi við Menntamálastofnun og samhliða því var nýtt prentefni gefið út.