Aðalframkvæmdarstjóri Sameinuðu þjóðanna: Æðsti embættismaður Sameinuðu þjóðanna. Hann hefur yfirumsjón með starfsemi samtakanna og getur lagt fyrir öryggisráðið hvers kyns mál sem hann telur að ógna kunni heimsfriði og lagt fram tillögur um málefni sem tekin skulu upp á allsherjarþinginu eða í öðrum stofnunum Sameinuðu þjóðanna.
Aðildarríki: Stjórnvöld ríkjanna 196 sem staðfest hafa Barnasáttmálann.
Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna: Samkoma fulltrúa allra meðlima Sameinuðu þjóðanna sem hittast a.m.k. árlega og kjósa um ýmis mál. Þingið getur ályktað í tillöguformi um hvers kyns alþjóðamál.
Auðkenni: Það sem einkennir viðkomandi barn og greinir það frá öðrum, t.d. ríkisfang, nafn og fjölskyldutengsl.
Barn: Einstaklingur undir 18 ára aldri nema hann verði lögráða fyrr samkvæmt þeim lögum sem gilda í því landi sem hann býr í. Í Barnasáttmálanum er ekki tekin afstaða til þess hvenær barnæskan hefst heldur er aðildarríkjum, hverju og einu, látið það eftir með eigin löggjöf og í samræmi við eigin siði og menningu.
Barnaréttarnefnd: Verkefni hennar er að fylgjast með hvernig Barnasáttmálanum er framfylgt í hverju aðildarríki. Í nefndinni sitja tíu sérfræðingar sem fara yfir skýrslur aðildarríkja og ýmissa stofnana og samtaka um framkvæmd Barnasáttmálans í hverju landi og koma með tillögur að úrbótum fyrir hlutaðeigandi ríki.
Félagsleg aðstoð: Ef fullorðnir ábyrðgarmenn barns geta ekki framfleitt því ber ríkinu skylda til að tryggja að barn njóti fjárhagslegs stuðnings af einhverju tagi.
Foreldri: Einstaklingur sem ber ábyrgð og skyldur gagnvart barni. Foreldri getur verið kynforeldri, stjúpforeldri, kjörforeldri eða fósturforeldri.
Fóstur: Með fóstri er átt við að barnaverndaryfirvöld fela sérstökum fósturforeldrum forsjá eða umsjá barns. Ástæður þess geta verið margvíslegar en markmiðið er að koma barni úr slæmum aðstæðum í betri. Fóstur getur verið tímabundið, varanlegt og styrkt.
Framfærslueyrir: Meðlag. Reglurlegar greiðslur sem það foreldri sem ekki fer með forsjá barns verður að greiða sem framfærslu fyrir barnið.
Flóttamaður: Sá sem er utan heimalands síns af ástæðuríkum ótta við að verða ofsóttur vegna kynþáttar, trúarbragða, þjóðernis, aðildar í sérstökum félagsmálaflokkum eða stjórnmálaskoðana, og getur ekki, eða vill ekki, vegna slíks ótta, færa sér í nyt vernd heimalands síns, eða sá sem er ríkisfangslaus, og er utan þess lands, þar sem hann áður hafði reglulegt aðsetur, vegna slíkra atburða og getur ekki eða vill ekki, vegna slíks ótta, hverfa aftur þangað.
Fullgilding: Þau aðildarríki sem hafa fullgilt sáttmálann skuldbinda sig að alþjóðalögum, til að tryggja börnum innan sinnar lögsögu öll þau réttindi sem kveðið er á um í sáttmálanum og að skila skýrslu til Barnaréttarnefndarinnar.
Hvíld: Hér er átt við grundvallarþörf fyrir líkamlega og andlega hvíld og svefn.
Hælisleitandi: Sá sem sækist eftir hæli í ákveðnu landi sem flóttamaður er skilgreindur sem hælisleitandi. Hæli merkir öruggur staður þar sem fólk nýtur verndar.
Kafalah: Fósturúrræði þar sem barn tekur ekki upp fjölskyldunafn fósturfjölskyldunnar né öðlast erfðaréttindi. Ættleiðing er ekki viðurkennd í ríkjum sem byggja löggjöf sína á íslömskum kennisetningum og er því notast við kafalah.
Leikur: Athafnir barna sem fullorðið fólk stjórnar ekki og þurfa ekki endilega að falla undir ákveðnar reglur. Börn finna alltaf leiðir og aðferðir til að leika sér, jafnvel við erfiðar aðstæður. Í heimi fullorðinna er oft litið á leikinn sem munað, en leikurinn er nauðsynlegur þáttur í andlegum og líkamlegum þroska barnsins.
Lögráðamaður: Sá sem lögum samkvæmt fer með málefni ólögráða barns, þ.e. ræður yfir fé og persónulegum högum þess. Yfirleitt eru það foreldrar eða þeir sem fara með forsjá barns sem eru lögráðamenn.
Málsmeðferð: Formleg meðferð máls, dómsmáls eða stjórnsýslumáls, frá upphafi allt til málalykta.
Ofbeldi: Ofbeldi getur verið líkamlegt, andlegt og kynferðislegt. Refsingar og einelti er líka ofbeldi. Líkamlegt ofbeldi er þegar einstaklingur er meiddur viljandi. Dæmi um andlegt ofbeldi er þegar talað er niður til einhvers eða sett út á orð, athafnir eða útlit. Kynferðislegt ofbeldi getur verið allt frá kynferðislegu- eða klámfengnu tali, myndbirtingum, snertingum og til nauðgunar. Það að búa við ofbeldi á heimili er líka ofbeldi.
Ríki: Mannlegt samfélag sem hefur varanleg yfirráð yfir tilteknu landsvæði, býr við lögbundið skipulag og lýtur stjórn er sækir vald sitt til samfélagsins sjáls en eigi til annarra ríkja, enda fari sú stjórn með æðsta vald í landinu, óháð valdhöfum annarra ríkja að öðru leyti en því er leiðir af reglum.
Ríkisfang: Ríkisborgararéttur. Lögformlegur þegnréttur í ríki. Segir til um hverjir eru borgarar tiltekins ríkis. Ríkisborgarar eiga réttindi og bera skyldur umfram aðra sem ekki njóta ríkisborgararéttar. Mismunandi er eftir löndum hvernig lög um ríkisborgararétt eru.
Sameinuðu þjóðirnar: Samtök nær allra þjóða heims sem ætlað er að varðveita heimsfrið og öryggi, efla friðsamlega sambúð á milli þjóða, koma á alþjóðasamvinnu um lausn alþjóðavandamála og stuðla að virðingu fyrir mannréttindum.
Skemmtanir: Allt það sem hægt er að fást við að eigin vali sér til ánægju (þ.m.t. íþróttir, skapandi listir, handíðir, verkefni á sviði vísinda, landbúnaðar eða tækni).
Stjórnvald: Handhafi framkvæmdarvalds á vegum ríkis eða sveitarfélaga. Stjórnvaldi er almennt komið á fót með lögum eða með heimild í lögum og rekið fyrir almannafé.
Stofnanir: Hér er átt við alls kyns stofnanir sem reknar eru með styrk frá eða á vegum ríkis og sveitarfélaga, t.d. skóla, heilsugæslustöðvar, sjúkrahús, meðferðarheimili og félagsþjónustu.
Tómstundir: Að hafa tíma og frelsi til að gera það sem börnin langar til.
Þjóðaréttur: Fjallar um þær reglur sem gilda í lögskiptum ríkja og gagnvart alþjóðastofnunum og um það réttarkerfi sem ríkir í alþjóðasamfélaginu.
Ættleiðing: Ættleiðing er þegar fullorðnir taka að sér hlutverk foreldris barns sem er ekki líffræðilegt afkvæmi þeirra. Þetta er löglegt ferli sem felur í sér að barnið verður hjá þeim sem ættleiða til frambúðar og nýtur allra sömu réttinda eins og um líffræðilega foreldra væri. Dómsmálaráðherra veitir þetta leyfi. Ekki má veita leyfi nema að viðkomandi barnaverndarnefnd hafi sýnt fram á að það sé barninu fyrir bestu að verða ættleitt af þeim sem þess óska.