Nú ert þú landnemi sem nemur nýtt land. Þú ræður hvort þú sért ein/n/tt í þessu verkefni eða með fleirum. Þú ætlar að búa til nýtt land, velja tungumál, landslag, menningu og hvaða reglur og lög eiga að gilda.
Notaðu eyðublað 2 til að hjálpa þér. Búðu til hús og landslag og annað sem þú vilt að einkenni landið. Þú getur teiknað landið, málað það, gert líkneski, höggmynd eða hvað annað sem þér dettur í hug.
Smelltu á blaðið hér til hliðar til að stækka það, þú getur líka prentað það út.
Efniviður: Nota hugmyndaflugið fyrir ýmsan efnivið og tilvalið að nýta endurvinnanlegt efni, s.s. mjólkurfernur, eggjabakka, ýmsan pappa og plast sem tilfellur.
Tilbrigði: Verkefnið býður upp á fjölbreytta nálgun með mismunandi efnivið
Nánari upplýsingar: Í Barnasáttmálanum er lögð mikil áhersla á bann við ýmiss konar mismunun. Öll börn eiga að njóta sama réttar, sama hvar þau eiga heima, hvaðan þau koma, hvernig þau líta út, hvað þau geta gert eða geta ekki gert. Skoðanir allra eiga rétt á sér þó maður sé sjálfur ekki endilega alltaf sammála og það skiptir ekki máli hver áhugamálin eru eða hvernig þú vilt klæða þig – öll börn eiga sama rétt.
Grunnþættir menntunar: Sköpun
Texti sem vísar í Barnasáttmálann: Öll börn skulu njóta réttinda Barnasáttmálans án tillits til kynþáttar, litarháttar, kynferðis, tungu, trúar, stjórnmálaskoðana, ætternis, fötlunar, félagslegrar stöðu eða annarra aðstæðna þeirra eða stöðu eða athafna foreldra þeirra.
Greinar Barnasáttmálans: Allar